Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Mengun sálarinnar.

 

Las í  "Blaðinu" í dag frétt sem bar yfirskriftina Klámfengi og kvenfyrirlitning. Þar er rætt um agavandamál í vinnuskóla Kópavogs. Forstöðumaðurinn segist hafa gert sér grein fyrir því að ekki var nóg að hafa reglur bara varðandi skipulag og matartíma.

 Heldur þurfti líka að setja reglur varðandi bann við nauðgunarbröndurum, grófum klám-athugasemdum og niðrandi útlendingabröndurum innan hópsins. Þessar reglur endurtek ég fyrir einstaklingum i vinnuhópnum nánast daglega, segir forstöðumaðurinn.

Guðsteinn bloggvinur minn talar um reykingar í dag og að fólk sem reykir fái ekki að taka að sér börn. En hvað með fólk sem mengar sálarlíf barna sinna með ósiðlegu athæfi. Kannski erfiðara að koma í veg fyrir það.  Hvað með þjóðfélag sem lætur þetta ósiðlega athæfi viðgangast og gerir jafnvel góðan róm að ?

Það var tvennt sem kom í hugann þegar ég las umrædda grein. Í fyrsta lagi : Við sem þjóð höfum snúið okkur frá kristnum gildum og uppskerum samkvæmt því. Orðskv. 29:16, Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum

Orðskv. 29.2. Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.

Annað: Þegar Jesús var hér á jörðinni, sagði hann:  "Leyfið börnunum að koma til mín."

Því miður eru margir í dag sem meina börnum sínum að koma til Jesú .

Og því fara þau á mis við það sem hann getur og vill gefa þeim.

Drottin mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.  ( sálmur 121.7)

Um það snýst málið, það sem sálin nærist á það er það sem út kemur.

Af hverju ekki að leyfa Drottni að vernda sálarlíf komandi kynslóðar.


Hver lýsir þinn veg ?

 

 

 

Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann var að koma í heiminn.(Jóh.1.9. )

En þessi er dómurinn, að ljósið er komið í heiminn, og mennirnir elskuðu myrkrið meir en ljósið. (Jóh.3.19.)  Fyrir mörgum árum var ég á togveiðibát úti fyrir austfjörðum. Við vorum að toga með öll ljós slökkt. Af hverju ? Jú við vildum vera í myrkrinu. 

Og jú, við vorum innan við landhelgismörkin. Skyndilega erum við upplýstir af mjög sterkum fljóðljósum og sterk rödd hljómaði út í náttmyrkið, sem skipaði okkur að hífa inn trollið. Löggjafarvaldið var mætt á staðinn.

Ljósið var greinilega myrkrinu yfirsterkara og við höfðum verið staðnir að verki við landhelgisbrot, færðir til hafnar og afli og veiðarfæri gerð upptæk.

 

Því hver sem illt aðhefst hatar ljósið og kemur eigi til ljóssins, til þess að verk hans verði ekki uppvís.En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði , að verk hans eru í Guði gjörð. (Jóh. 3.21.)

 

Er ekki bara miklu betra að hafa öll okkar verk í ljósinu ? Það hefði þýtt að við hefðum togað með fullum ljósum og verið réttu megin við landhelgislínuna. Það er alltaf sorglegt þegar fólk elskar myrkrið meira.

Hvað segir þetta okkur ? Jú, Guð dæmir okkur ekki.  Við dæmum okkur sjálf.

Spurningin er,  þegar  við erum upplýst, leyfum við ljósinu að upplýsa okkur eða hlaupum við til baka inn í myrkrið ?

Sjáðu, orð Guðs er ljós á vegi þínum og lampi fóta þinna. Það stendur öllum mönnum til boða.


Hvernig vin viltu ?

  

I have my fans, sagði Paris Hilton áður en hún fór í fangelsið. Þetta  minnti mig á þessa setningu:

Hollywood segir þér, að þú sért eitthvað, sem þú  ekki ert. "   Guð segir þér hins vegar : Að Hann geti gert eitthvað úr þér , sem þú  ekki ert.Í orðskviðunum 20.6. segir : " Margir menn eru kallaðir kærleiksríkir, en tryggan vin hver finnur hann ?

Hvort viltu eiga tryggan vin, frægan vin, eða ríkan vin ? Auðvitað getur frægur og ríkur vinur verið góður vinur, en hvar er þitt gildismat ?

Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir. Orðskv. 17.17.

Trúmennska, hvað er það ? Traust ? Eru þetta gildi sem eru "inn" í dag ?  Eru þetta gildi sem er haldið á lofti í dag ?

Veistu að Guð er trúfastur og hann er svo trúfastur, að Hann er trúr sínu orði.   Þ.e. Hann er trúr ritningunni. Þetta eiga margir erfitt með að skilja í dag. En á þessu byggir réttlæti Guðs. Hann segir ekki eitt í dag og annað á morgun.Jesús sagði að sá sem væri stöðugur í kærleikanum héldi boðorð föðurins, eins og hann sjálfur héldi þau.Jóh. 15.10.

Jeremía 1.12. "Því ég vaki yfir orði mínu til að framkvæma það"

Guð er ekki maður að hann ljúgi, né sonur manns að Hann sjái sig um hönd. ( 4.mos. 23.19)

Vilja ekki flestir eiga  vini sem eru menn orða sinna ?

 

Kærleikurinn er ekki lygari.

 

 

Blekking er það kallað þegar menn telja sig gera rétt en gjöra rangt. Hvað fær menn til að lifa í blekkingu. Jú, lygin, þeir trúa lyginni.

Ritningin talar mikið um sannleikann og lygina og segir okkur að sá tími muni koma að menn skipti á sannleika og lygi. Hvernig má þetta vera ? Jú menn eru blekktir. Í Bréfi sínu til Filippímanna segist Páll biðja fyrir þeim að elska þeirra aukist meir og meir , svo þeir geti metið þá hluti rétt sem máli skipta.

Er nokkuð ömurlegra fyrir ferðamann heldur en að aka þúsund mílur í öfuga átt, af því að einhver snéri vegvísinum við. Eða uppgötva það að vera komin á loft í flugvél á leið til Afríku, þegar þú bara ætlaðir til Danmerkur, bara vegna rangra upplýsinga á skjá.

En,,,, segir sá sem sneri skiltinu, þessi leið var niðri í móti og svo miklu þægilegri, en hin leiðin, ég vildi bara láta fólki líða vel.

Spurningin er, Er það kærleikur að vísa fólki ranga leið til þess að því líði vel um stund ?

Og að þú sért um leið meðtekinn af samtímanum. Því miður virðist samtíminn vera orðin Guð margra fræðimanna í dag.

Nei kærleikurinn hugar að sannleikanum og leitar hans. Margir segja, skiptir það einhverju máli hverju við trúum ?  Já það skiptir máli, tveggja barna móðir sprengir sig í loft upp, frá eiginmanni og tveimur börnum. Af hverju, hún var blekkt.  

Kirkjan er kölluð í ritningunni stólpi sannleikans. Hvað gerist ef stólpum er kippt undan byggingu ?  Ritningin í heild sinni byggir á kenningu. Sú kenning sem byggir á sannleika stenst. Hús sem hefur réttan grunn og rétt út reiknað  burðarþol stenst. Hús byggt á sandi hins vegar, stenst ekki veðrin.

Sál mannsins er eilíf og það skiptir máli hverju við trúum. Þess vegna skiptir það máli að þeir sem eiga vísa veginn snúi ekki skiltinu í ranga átt.

1.pét. 3.1. Þetta er nú annað bréfið sem ég skrifa yður þér elskaðir, og í báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. Það geri ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.

Lúk .24.27. Og hann (Jesús)  byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það , sem um hann er í öllum ritningunum.

Kristin trú byggir einfaldlega á biblíunni eða ritningunni. Hún er stólpi sannleikans,og hefur sannarlega staðist tímans tönn. Matt.24.35. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Og enn og aftur sannleikurinn breytist ekki, hins vegar getur farið svo að við hættum að þekkja sannleikann, ef við höfnum þeirri leiðbeiningu sem Guð hefur gefið.

 


Höfundur

Kristinn Ásgrímsson
Kristinn Ásgrímsson
Safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík. Nafnlausar athugasemdir eru ekki leyfðar á þessum vef og verða fjarlægðar, sem og dónalegar athugasemdir.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband