Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Sabbatsdagur eða Sabbatshvíld ?

 

 

 

Ég hef verið  beðin að segja mitt álit í sambandi við hvíldardaginn. Það hefur verið athyglisverð umræða hér á nokkrum bloggsíðum um þetta mál. Þar hefur komið fram nokkuð góður rökstuðningur fyrir því að laugardagurinn sé rétti hvíldardagurinn. Ég hef ekkert við það að athuga og er sammála því að laugardagurinn er rétti hvíldardagurinn.

Hins vegar er þetta og var hvíldardagur gyðinga og hvíldardagur hins óendurfædda eða náttúrulega manns. 

Gamli sáttmálinn hafði prestaþjónustu, Móselögmálið, hátíðir og hvíldardaga og alls kyns reglur. Gamli sáttmálinn var gerður við Abram og síðan kemur lögmálið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.

 

Páll postuli talar um þetta í Galatabréfinu 4.10: þér hafið gætur á dögum og mánuðum, vissum tíðum og árum .

Kól. 2.16. Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. Þetta er aðeins skuggi þess sem koma átti, en líkaminn er Krists

 

Ég vil bara benda hér á að þessi umræða er ekki ný, hún var uppi á dögum Páls þegar hinir kristnu gyðingar ásökuðu heiðingjana sem höfðu tekið við Kristi um að halda ekki hátíðir eða hvíldardaga . Hvað segir Páll. Enginn skyldi dæma yður .... þetta er aðeins skuggi þess sem koma átti.

 

Í Hebreabréfinu ber höfundurinn saman hvíld hins nýja sáttmála og hvíldardagsins. Sjáðu til, þú getur haldið hvíldardaginn heilagan hvern laugardag og jafnvel hvern einasta dag, án þess að ganga inn til hvíldarinnar í Kristi.

Hebr. 4. 1. Fyrirheitið um að ganga inn til hvíldar Hans stendur enn.....

Hér er alls ekki verið að tala um að halda einhvern hvíldardag, heldur ganga inn til hvíldar Guðs fyrir trúna á Jesú Krist.

Ég fyrir mitt leyti er mjög sáttur við þá, sem hafa þá trú að halda laugardag , sem hvíldardag ,

Róm 14. 5. "Einn gjörir mun á dögum annar metur alla dag jafnt. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum." en mín sannfæring er sú , að það sé engin hvíldardagur í hinum nýja sáttmála heldur sabbatshvíld í Kristi.

Ef þetta hefði verið mál, þá hefði postulafundurinn ályktað að það ætti að bjóða heiðingjunum að halda hvíldardaginn.

Hins vegar er það mitt mat að við eigum að minnast Drottins og lofa Hann og upphefja á " Drottins Degi, ( Opinb.1.10.) sem er ekki endilega hvíldardagur heldur dagur tileinkaður Drottni okkar og frelsara sem hefur gefið okkur hvíldina í Kristi sem menn gamla sáttmálans gátu ekki meðtekið, vegna þess að Kristur var ekki enn dáinn vegna okkar synda.

Þetta er nú ekki skrifað til að deila við þá ágætu bræður sem um þetta hafa skrifað, heldur til að standa vörð um mína eigin sannfæringu og frelsi mitt og sabbatshvíld í Jesú Kristi.

 

 


Viðheldur fáfræði kristinni trú eða er fáfræðin ráðandi varðandi kristni ?

 

Fáfræðin viðheldur minni trú ?

 

Steindór J. Erlingsson nokkur skrifar grein í Fréttablaðinu 16 ágúst s.l. þar sem hann reynir að rökstyðja það að kristin trú sé enn til staðar vegna fáfræði. Til að rökstyðja mál sitt vitnar Steindór í bandarískan fræðimann sem notar ákveðna aðferðarfræði og kemst að þeirri niðurstöðu að Jesús hafi verið til, en hins vegar með sömu aðferðarfræði ekki upprisinn..

Við þurftum nú reyndar ekki að lesa þennan fræðimann til að vita um þessar kenningar. Matteusarguðspjall greinir frá þessum vangaveltum sem voru strax til staðar eftir upprisuna. Þar segir að hermönnunum sem gættu grafarinnar  hafi verið greitt fyrir að bera út þá sögu að lærisveinar  Jesú hafi stolið líki hans .

Steindór ýjar einnig að því í grein sinni að ákveðin klíka hafi ráðið hvað varð ofan á í þeirri samantekt sem við köllum Nýja testamennti.   Nú er ég vélstjóri, og ef að ég sé vél sem fer í gang og virkar þá er mér nokk sama þótt einhverjir vélaverkfræðingar segi mér að þessi vél eigi ekki að geta gengið.

Væri ekki nær að Steindór rannsakaði ritningarnar sjálfur og t.d. teldi saman þá spádóma Gamla testamenntisins t.d. um Jesú Krist sem við sjáum að eru þegar í uppfyllingu.Væri ekki nær að athuga hvort boðskapurinn virkar.

Steindór telur að kristin trú sé enn til staðar vegna blekkinga þeirra sem kenna kristinfræði.Hann gæti alveg eins sagt mér að hjónaband mitt væri byggt á einhverri blekkingu og að konan mín væri bara misskilningur.

Þvílík fáfræði segi ég nú bara. Kristin trú byggir á lifandi samfélagi milli Guðs og manns.

Jesús sagði: Enginn getur séð Guðs ríkið nema hann endurfæðist.  Það er greinilegt að Steindór hefur ekki séð Guðs ríkið. Þess vegna er hann einfaldlega fáfróður um það.

En það er bæn mín að Steindór leiti ekki lengur til fáfróðra milliliða heldur tali við skaparann sjálfan í gegnum meðalgangarnn Jesú Krist.

Að lokum eitt vers úr spádómbók Jesaja sem á vel við hér: " Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael (maðurinn)  þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki."

Eitt erum við Steindór þó sammála um og það er niðurlagið í grein hans: "Ignorance is bliss."


Gullna hliðið

Gullna hliðiðGullnahliðið 2

 

Á Keflavíkurflugvelli er hlið sem kallað er "Gullna hliðið."  Þar fer enginn í gegn, nema hafa  aðgangspassa - aðgangspassi fæst ekki nema viðkomandi hafi hreint sakavottorð og uppfylli þau skilyrði sem sett eru. Þegar farið er inn á svæðið  þarf að fara úr yfirhöfn- fara gegnum vopnaleitartæki- og stundum handleit eftir það.

Allt er þetta gert til að gæta öryggis flugvallarins eða flugfarþeganna.

Ef aðgangspassi gleymist, þá er ekki nóg að þekkja öryggisverðina, þú ferð annað hvort heim og sækir passann, eða einhver innan vallar tekur ábyrgð á þér. Ef þú sættir þig ekki við þá leið sem flugmálastjórn hefur ákveðið, þá ferð þú einfaldlega ekki inn á flugvöllinn.

 

 Dag einn var ég staddur í varðstöðinni þar sem vopnaleitartækin eru og inn kom maður sem var að koma í fyrsta skipti og var skráður inn, fékk bráðabirgðar passa, þar eð einhver tók ábyrgð á honum. Hann ætlaði síðan aftur út án þess að fara gegnum vopnaleitina. Þá var kallað á hann , og honum sagt, að hann væri "óhreinn" og eina leiðin inn á svæðið, væri að fara gegnum gegnumlýsingartækin til að verða hreinn.

.Þetta minnti mig á frásögn Jesú Krist sem sagði : Ég er dyrnar.   Og aftur á öðrum stað þar sem talað er um hina helgu eða himnesku borg Jerúsalem: " Og alls ekkert  óhreint skal inn í hana ganga, né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi,- engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins."  (Opninb.21.27)

En er ekki undarlegt að menn geta sætt sig við að enginn komi inn á flugvöll nema eftir ákveðnum reglum,-vera skráðir í stafsmannabók flugmálastjórnar -þar sem engin frávik eru, bara ein leið.

En síðan segja margir að við getum komið til himinsins hvaða leið sem við viljum.

Er ekki skrítið hvað menn eru  oft ósáttir með það , að Guð almáttugur hafi eitthvað val um hvernig fólk komi inn á Hans yfirráðasvæði. Þegar þeim er sagt að við getum aðeins gengið hrein inn, með því að koma í gegnum "dyrnar" Jesú Krist. Hann er okkar andlega gegnumlýsingartæki  - Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann . Og Hann hreinsar okkur af allri synd.

Það sem Jesús Kristur hefur fram yfir flugmálastjórn er að hjá Honum færðu allt í einu, hreint sakvottorð, aðgangspassa og það gerist bara á einu augnabliki, það er opið allan sólarhringin.

Hann er bara einni bæn í burtu. Fáðu þér aðgangspassa að Guðs ríkinu strax í dag.

 


Hver lýsir þinn veg ?

 

 

 

Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann var að koma í heiminn.(Jóh.1.9. )

En þessi er dómurinn, að ljósið er komið í heiminn, og mennirnir elskuðu myrkrið meir en ljósið. (Jóh.3.19.)  Fyrir mörgum árum var ég á togveiðibát úti fyrir austfjörðum. Við vorum að toga með öll ljós slökkt. Af hverju ? Jú við vildum vera í myrkrinu. 

Og jú, við vorum innan við landhelgismörkin. Skyndilega erum við upplýstir af mjög sterkum fljóðljósum og sterk rödd hljómaði út í náttmyrkið, sem skipaði okkur að hífa inn trollið. Löggjafarvaldið var mætt á staðinn.

Ljósið var greinilega myrkrinu yfirsterkara og við höfðum verið staðnir að verki við landhelgisbrot, færðir til hafnar og afli og veiðarfæri gerð upptæk.

 

Því hver sem illt aðhefst hatar ljósið og kemur eigi til ljóssins, til þess að verk hans verði ekki uppvís.En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði , að verk hans eru í Guði gjörð. (Jóh. 3.21.)

 

Er ekki bara miklu betra að hafa öll okkar verk í ljósinu ? Það hefði þýtt að við hefðum togað með fullum ljósum og verið réttu megin við landhelgislínuna. Það er alltaf sorglegt þegar fólk elskar myrkrið meira.

Hvað segir þetta okkur ? Jú, Guð dæmir okkur ekki.  Við dæmum okkur sjálf.

Spurningin er,  þegar  við erum upplýst, leyfum við ljósinu að upplýsa okkur eða hlaupum við til baka inn í myrkrið ?

Sjáðu, orð Guðs er ljós á vegi þínum og lampi fóta þinna. Það stendur öllum mönnum til boða.


Kærleikurinn er ekki lygari.

 

 

Blekking er það kallað þegar menn telja sig gera rétt en gjöra rangt. Hvað fær menn til að lifa í blekkingu. Jú, lygin, þeir trúa lyginni.

Ritningin talar mikið um sannleikann og lygina og segir okkur að sá tími muni koma að menn skipti á sannleika og lygi. Hvernig má þetta vera ? Jú menn eru blekktir. Í Bréfi sínu til Filippímanna segist Páll biðja fyrir þeim að elska þeirra aukist meir og meir , svo þeir geti metið þá hluti rétt sem máli skipta.

Er nokkuð ömurlegra fyrir ferðamann heldur en að aka þúsund mílur í öfuga átt, af því að einhver snéri vegvísinum við. Eða uppgötva það að vera komin á loft í flugvél á leið til Afríku, þegar þú bara ætlaðir til Danmerkur, bara vegna rangra upplýsinga á skjá.

En,,,, segir sá sem sneri skiltinu, þessi leið var niðri í móti og svo miklu þægilegri, en hin leiðin, ég vildi bara láta fólki líða vel.

Spurningin er, Er það kærleikur að vísa fólki ranga leið til þess að því líði vel um stund ?

Og að þú sért um leið meðtekinn af samtímanum. Því miður virðist samtíminn vera orðin Guð margra fræðimanna í dag.

Nei kærleikurinn hugar að sannleikanum og leitar hans. Margir segja, skiptir það einhverju máli hverju við trúum ?  Já það skiptir máli, tveggja barna móðir sprengir sig í loft upp, frá eiginmanni og tveimur börnum. Af hverju, hún var blekkt.  

Kirkjan er kölluð í ritningunni stólpi sannleikans. Hvað gerist ef stólpum er kippt undan byggingu ?  Ritningin í heild sinni byggir á kenningu. Sú kenning sem byggir á sannleika stenst. Hús sem hefur réttan grunn og rétt út reiknað  burðarþol stenst. Hús byggt á sandi hins vegar, stenst ekki veðrin.

Sál mannsins er eilíf og það skiptir máli hverju við trúum. Þess vegna skiptir það máli að þeir sem eiga vísa veginn snúi ekki skiltinu í ranga átt.

1.pét. 3.1. Þetta er nú annað bréfið sem ég skrifa yður þér elskaðir, og í báðum hef ég reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá yður. Það geri ég með því að rifja upp fyrir yður þau orð, sem hinir heilögu spámenn hafa áður talað, og boðorð Drottins vors og frelsara, er postular yðar hafa flutt.

Lúk .24.27. Og hann (Jesús)  byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það , sem um hann er í öllum ritningunum.

Kristin trú byggir einfaldlega á biblíunni eða ritningunni. Hún er stólpi sannleikans,og hefur sannarlega staðist tímans tönn. Matt.24.35. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Og enn og aftur sannleikurinn breytist ekki, hins vegar getur farið svo að við hættum að þekkja sannleikann, ef við höfnum þeirri leiðbeiningu sem Guð hefur gefið.

 


Guðfræði að neðan

 

 

 

Í Sunnudagsblaði m.b.l. er athyglisvert viðtal við sóknarprestinn Bjarna Karlsson, sem vill breyta kirkjunni með guðfræðinni að neðan og tekur sérstaklega fram að það sé ekki guðfræðin að ofan sem hann aðhyllist.

 

Í viðtalinu kemur fram að tíðarandinn sé að breytast og því þurfi guðfræðin að breytast til að geta þjónað samtímanum.

 

Já ég er sammála Bjarna að þessi fræði koma svo sannarlega ekki að ofan, þar sem okkur er kennt að við eigum að vera eftirbreytendur Guðs,en ekki Hann okkar. Ef. 5.1

Þegar talað er um tíðaranda, þá skilgreinir orð Guðs hann svona: valdhafinn í loftinu, andi þess, sem starfar í þeim sem ekki trúa. Ef. 2.2. Jú sá andi er að neðan.

 

Biblían talar reyndar um þá speki sem kemur að neðan og segir okkur að hún sé jarðnesk, andlaus, djöfulleg..... en sú speki sem kemur að ofan er : hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta. Jakobsbr. 3. 13- 18.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þessa grein í m.b.l  heldur benda á það sem ritningin hefur að segja um þetta.

 

1. Tím 4.1. Andinn segir berlega , að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.  Doctrines that demons teach.(amp)

 

2. Tím 4. 3. Því þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum (guðfræði að neðan)til að heyra það sem kitlar eyrun. 4. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.

 

Malakí 2.7. Því varir prestsins eiga að varðveita þekking, og fræðslu leita menn af munni hans, því að hann er sendiboði Drottins allsherjar. 8. En þér hafið vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví.

 

Malakí 1. 10. Sæmra væri, að einhver yðar lokaði musterisdyrunum....

 

Ég segi það aftur að ef andinn að neðan, sá sem starfar í þeim sem ekki trúa, á að leiða kristna kirkju, þá er komin tími til að loka dyrunum.

 

 

 


Lífsbreytandi kraftur

 

Lífsbreytandi kraftur.

 

Þá er upp var runnin hvítasunnudagur, voru þeir allir samankomnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið þar sem þeir voru . Þeim birtust tungur eins og af eldi væru, er kvísluðuðst og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum eins og andinn gaf þeim að mæla . Post 2. 1-4.

 

Hans andi var kominn til að dvelja innra með Hans fólki. Á hvítasunnudag sjáum við breyttan Pétur. Þessi Pétur sem hafði 3svar afneitað Kristi stígur nú fram fyrir fjölda manns og er nú fullur af djörfung og krafti. Eitthvað hafði gerst. Jú, heilagur andi hafði tekið sér bólfestu í lífi Péturs. Hann var breyttur.

Síðan þá hefur þessi lífsbreytandi kraftur, sem er þriðja persóna Guðdómsins breytt lífi milljóna manna um heim allan. Gefið vonlausum von,  bandingjum lausn  og gefið þjáðum huggun.

Enn í dag hvarfla augu Guðs um jörðina leitandi að þeim sem eru heilshugar við hann, að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar.

Gleðilega hvítasunnu.


Að kefja sannleikann eða Biblíufóbía.

 

 Páll postuli talar í Rómverjabréfinu um þá sem reyna að kefja sannleikann. Það er vers sem kemur óneitanlega upp í hugann þegar ég hlusta á ákveðna prestlærða menn.Að lesa og hlusta á viðhorf nokkurra Guðfræðinga undanfarið, vekur alltaf meiri og meiri furðu mína.

 Þegar kemur að því sem við köllum “heilaga ritningu” eða “Biblían” þá vara þessir menn okkur við henni eða taka fram  ákveðna texta og hreinlega útskýra í burtu.Stundum finnst mér eins og við séum komin 500-1000 ár aftur í tíman, þar sem presturinn messaði á latínu og alþýðumaðurinn skildi ekkert. Það mætti ætla að sumir þessir menn haldi að við leikmennirnir séum ólæsir, eða blindir.Eða eins og einn Guðfræðinemi spurði mig: Kristinn hefur þú menntun til að leggja mat á þessi mál?

 Höfðu lærisveinarnir það forðum ? Hverja sendi Kristur út ? Lærisveina eða fræðimenn. Auðvitað geta fræðimenn verið lærisveinar. En eftir stendur að Jesús sagði lærsveinum sínum að gjöra lærisveina. Einn þessarra presta  segir okkur að Jesús Kristur hafi ekki sett fram neinn siðferðisboðskap. Hvernig í ósköpunum er hægt að bera það á borð fyrir þá sem lesa biblíuna. Annar segir okkur að biblíuþýðendur í gegnum tíðina séu ekki trúverðugir. Hann tekur texta Páls í Róm 1.24-27 þar sem Páll talar um samkynja mök og segir okkur að hér sé verið að tala um fjöllyndi eða það  að konan taki frumkvæði. Lesi nú hver fyrir sig.  Vel rætist á honum ritningin í sama kafla: Þeir þóttust vera  vitrir en urðu heimskingjar.

 Fríkirkjupresturinn heldur áfram að slá í gegn: Hann segir okkur að fórnardauði Krists skipti engu máli lengur. Við getum komið til Guðs í gegnum Múhameð eða búdda eða alla hindúaguðina. (Blaðið. 14.apríl)Kannski sjáum við bráðum Moskvu við tjörnina og heilagar kýr, nú eða menn  þvoi af sér syndir sínar í tjörninni.

Er það ekki nöturlegt, að þeir menn sem eiga að segja sannleikann og kenna biblíuna, þeir virðast haldnir biblíufóbíu. Hvað var það sem Jesús lauk upp fyrir lærisveinum sínum á leiðinni til Emmaus? Var það Kóranin eða leiðari morgunblaðsins ?

Nei það voru ritningarnar frá Móse í gegnum spámennina sem fjölluðu um Krist. Flýði Jesús virkilega á undan okkur inn í bókstafshyggjuna ? Er ekki betra að gefast Guði á vald en að kefja sannleikann?


« Fyrri síða

Höfundur

Kristinn Ásgrímsson
Kristinn Ásgrímsson
Safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík. Nafnlausar athugasemdir eru ekki leyfðar á þessum vef og verða fjarlægðar, sem og dónalegar athugasemdir.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband