Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Að kefja sannleikann eða Biblíufóbía.

 

 Páll postuli talar í Rómverjabréfinu um þá sem reyna að kefja sannleikann. Það er vers sem kemur óneitanlega upp í hugann þegar ég hlusta á ákveðna prestlærða menn.Að lesa og hlusta á viðhorf nokkurra Guðfræðinga undanfarið, vekur alltaf meiri og meiri furðu mína.

 Þegar kemur að því sem við köllum “heilaga ritningu” eða “Biblían” þá vara þessir menn okkur við henni eða taka fram  ákveðna texta og hreinlega útskýra í burtu.Stundum finnst mér eins og við séum komin 500-1000 ár aftur í tíman, þar sem presturinn messaði á latínu og alþýðumaðurinn skildi ekkert. Það mætti ætla að sumir þessir menn haldi að við leikmennirnir séum ólæsir, eða blindir.Eða eins og einn Guðfræðinemi spurði mig: Kristinn hefur þú menntun til að leggja mat á þessi mál?

 Höfðu lærisveinarnir það forðum ? Hverja sendi Kristur út ? Lærisveina eða fræðimenn. Auðvitað geta fræðimenn verið lærisveinar. En eftir stendur að Jesús sagði lærsveinum sínum að gjöra lærisveina. Einn þessarra presta  segir okkur að Jesús Kristur hafi ekki sett fram neinn siðferðisboðskap. Hvernig í ósköpunum er hægt að bera það á borð fyrir þá sem lesa biblíuna. Annar segir okkur að biblíuþýðendur í gegnum tíðina séu ekki trúverðugir. Hann tekur texta Páls í Róm 1.24-27 þar sem Páll talar um samkynja mök og segir okkur að hér sé verið að tala um fjöllyndi eða það  að konan taki frumkvæði. Lesi nú hver fyrir sig.  Vel rætist á honum ritningin í sama kafla: Þeir þóttust vera  vitrir en urðu heimskingjar.

 Fríkirkjupresturinn heldur áfram að slá í gegn: Hann segir okkur að fórnardauði Krists skipti engu máli lengur. Við getum komið til Guðs í gegnum Múhameð eða búdda eða alla hindúaguðina. (Blaðið. 14.apríl)Kannski sjáum við bráðum Moskvu við tjörnina og heilagar kýr, nú eða menn  þvoi af sér syndir sínar í tjörninni.

Er það ekki nöturlegt, að þeir menn sem eiga að segja sannleikann og kenna biblíuna, þeir virðast haldnir biblíufóbíu. Hvað var það sem Jesús lauk upp fyrir lærisveinum sínum á leiðinni til Emmaus? Var það Kóranin eða leiðari morgunblaðsins ?

Nei það voru ritningarnar frá Móse í gegnum spámennina sem fjölluðu um Krist. Flýði Jesús virkilega á undan okkur inn í bókstafshyggjuna ? Er ekki betra að gefast Guði á vald en að kefja sannleikann?


Að hafna sannleikanum.

 

 

Í biblíunni er talað um að við getum hafnað sannleikanum - óhlýðnast sannleikanum-eða reynt að kæfa sannleikann. Okkur er líka tjáð að þegar sannleikanum er hafnað, að þá kemur blekkingin inn. Fyrir mörgum  árum var auglýsing í dagblaðinu Vísi,: "Viltu læra á gítar ? Sendu okkur 500 kr og við svörum um hæl."  Nokkrum dögum síðar fékk fólk svar :

"Þakka þér fyrir að senda 500 kr og láttu nú ekki hjá líða að læra á gítar. "  Nokkrir voru blekktir.  Nú þeir sem sendu inn peninga til að læra á gítar voru hvorki að hafna sannleikanum eða  óhlýðnast, þeir voru einfaldlega blekktir.

En þegar biblían varar okkur við að hafna  sannleikanum, þá er verið að tala um alvarlegri blekkingu sem snertir okkar sálar velferð.

.Af hverju vilja menn ekki elska sannleikann ? Jú sannleikurinn er líka ljós sem  lýsir okkur upp. Af hverju vilja menn kefja sannleikann ? Jú, hann hentar ekki þeirri blekkingu sem þeir kjósa að lifa í.

Alda gamalt kjaftæði segja margir. Hvað með allt nútímakjaftæðið spyr ég ? Er það að hjálpa okkur ? Er nútíminn einhver "patent lausn" eða mælikvarði á rétt og rangt. Menn keppast við að segja mér að viðhorf biblíunnar séu úrelt. Nútíminn hins vegar, kennir mér að ég sé minn eiginn Guð. Þ.e. að ég sé sjálfum mér lögmál og  það sem mér finnst rétt er rétt o.s.frv. Biblían kennir okkur hins vegar að Guð hafi gefið okkur sitt orð sem mælikvarða á rétt og rangt. Hingað til hafa flest vestræn ríki notað þennan mælikvarða.

Nei, Sannleikurinn hefur ekkert með tíma eða tilfinningu  að gera. Kærleikurinn er alda gamall, svo er og hatrið. Viðhorf manna til sannleikans hafa lítið breytst gegnum aldirnar. " Hvað er sannleikur spurði Pílatus, er hann framseldi Jesú og þvoði  hendur sínar, en blekkingin varð eftir í hjarta hans. Enn  í dag spyrja menn hvað er sannleikur ? Og hafna honum síðan.

Vissir þú að Jesús sagði:" að Orðið væri Guð"

Það er þá kannski ekki svo slæmt að breyta eftir orðinu. Getur verið að fjöldinn sem talar um bókstafstrúarmenn og sértrúarfólk sé  blekktur og hafi einfaldlega "fordóma " gagnvart sannleikanum ?

Sannleikurinn er varanlegur lygin stenst ekki: " Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin aðeins um stutta stund." . Orðskv. 12.19.

Þessi tilhneiging mannsins að hafna sannleikanum er ekki ný. Hún á sér rætur í garðinum Eden, þegar Adam og Eva tóku þá ákvörðun að hafna sannleikanum og trúa lyginni. Þau töldu sig vita betur en Guð, eins og margir í dag. Hver var afleiðingin ? Jú syndin kom inn í heiminn, og við lesum , maðurinn faldi sig fyrir skapara sínum. Jesús Kristur sonur Guðs fæddist í þennan heim sem maður, til að sýna okkur og sanna að Guð væri til og með komu sinni sannaði Hann það sem áður var ritað. Ef þú vilt þekkja sannleikann, kynntu þér þá ritningarnar og ákallaðu Jesú í einlægni og Hann mun leiða þig um rétta vegu sakir nafns síns.

 


Að höndla sannleikann.

 

Að höndla sannleikan.

Það vakti furðu mína fyrir nokkru að fríkirkjupresturinn Hjörtur Magni, taldi hættulegt fyrir okkur að höndla sannleikann. Sannleikurinn á að höndla okkur sagði hann. En hvernig getur sannleikurinn höndlað mig ef ég höndla ekki hann ?  M.ö.o. Getur sannleikurinn höndlað líf mitt ef ég ekki þekki hann og hann er mér fjarlægur. Jesú sagði : "Verið í mér og þá verð ég í yður."

Kristin trú byggir á því að einstaklingurinn höndli sannleikann. Sérhver sá sem trúir á Krist sem frelsara, er sannfærður um að hafa höndlað sannleikann.

Hættulegt að höndla sannleikan ? Mér var sem barni kennt að varast lygina. En kannski er það úrelt viðhorf.

Er hægt að höndla sannleikann ?  Kannski er það hægt fyrir okkur sem ekki erum guðfræðingar. Ég er t.d. sannfærður um að 2+2= 4  óháð tíma , tilfinningum, tíðaranda eða hneigð. Ég er líka sannfærður um að sólin er á sínum stað hvort sem ég sé hana eður ei.

Ég á erfitt með að skilja þetta með að sannleikurinn sé eitthvað grátt sem breytist við tilfinningu, tíma , tísku, girndir, eða hneigðir.

Jesús sagði reyndar að þeir sem þekktu sannleikann yrðu frjálsir. Ef að þekkja og höndla er sami hluturinn þá eru ekki allir frjálsir. A.mk. ekki þeir sem ekki vilja höndla.

Merkilegt sem Páll segir um sannleikann í Róm 1.22-25: Þeir kváðust vera vitrir,  en urðu heimskingjar......þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni.......

Jes.59.14. Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að. Sannleikurinn er horfinn og sá sem firrist það sem illt er, það er skjótt ráðist á hann. (Living bible)

Þegar ég les þessi vers finnst mér þau eiga vel við okkar tíma. Þegar guðfræðingar hvetja til brotthvarfs frá sannleikanum eins og við sjáum nú 40 presta leggja til, þá er illa komið fyrir íslenskri kirkju.

Biblían segir að Guðs hús sé stólpi sannleikans. Ef nú stólpanum er kippt í burtu þá hrynur byggingin.

Þess vegna skiptir það máli að við höndlum og förum rétt með orð sannleikans.

 

 


Höfundur

Kristinn Ásgrímsson
Kristinn Ásgrímsson
Safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík. Nafnlausar athugasemdir eru ekki leyfðar á þessum vef og verða fjarlægðar, sem og dónalegar athugasemdir.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband