Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fagnandi Talsmenn dauðans.

 

 

 

Tveir þingmenn þeir Ellert B. Schram og Steingrímur J. Sigfússon, rita báðir greinar í Mbl. á sumardaginn fyrsta. Þeir ráða sér vart fyrir kæti að hafa komið á þeim íslenska sið í allri Evrópu að konur geti haft frjálsan aðgang að þeirri þjónustu að fá ófædd börn sín deydd.

Ég spyr nú, er ekki komið árið 2008, lifum við ekki á upplýsingaöld, vitum við ekki að það er rangt að deyða, eða er bara í lagi að deyða ófædd börn.

Þegar ég hugleiði þennan ófögnuð verður mér hreint óglatt. Hvernig stendur á því að enginn þingmaður á Íslandi og  meirihluti þingmanni í Evrópu veit ekki að: " Fóstur er ófætt barn"

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en bendi á umræðu um þessi mál á heimasíðu Jóns Vals Jenssonar.

Ég set hér inn link svo allir geti séð um hvað málið snýst. En ég vara við myndunum, þær eru skelfilegar, en þetta er að gerast á okkar dögum og menn gera góðan róm að.


Bréf frá fanga

 

Í kvöld fékk ég bréf frá fanga. Ég kynntist þessum unga manni fyrir u.þ.b 9 mánuðum síðan á samkomu í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík. Síðan er það að hópur af ungu fólki fer að koma saman í kirkjunni okkar á laugardagskvöldum. Þau ganga undir nafninu " Kærleikurinn"

Nýlega sagði mér annar ungur maður: " Ég kom þarna á samkomu og sé þennan mann þarna, (umræddan fanga) og þegar ég sá hann þarna, þá vissi ég að Guð var raunverulegur, því ég þekkti þennan mann, og hann var algjör ........   en nú ljómaði hann af kærleika "

 

Margir hafa komið til mín með svipaða sögu af þessum unga fanga. Þegar þeir sáu breytinguna í lífi hans, þá sannfærðust þeir um að trúin á Krist er ekki bara eitthvað upp á punt, heldur er trúin, lífsbreytandi kraftur, sem umbreytir harðsvíruðustu glæpa og ofbeldismönnum og gjörir þá ljúfa sem lömb.

Ég kynntist aldrei dópsalanum og glæpamanninum Gunnari, ég kynntist yndislegum ungum manni sem þráir að allir fái að upplifa kærleika Krists, sem umbreytti hans lífi.

En nú kemur bréfið:

 

 

Gunnar Jóhann , trúboði Jesú Krists á Litla Hrauni heilsar öllum heilögum í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík. Megi náð og friður margfaldast ykkar á meðal í Jesú nafni.

Þegar ég kom í fangelsið á Skólavörðustíg 9 tóku fangaverðirnir vel á móti mér. Þeir áttu von á mér og þekktu mig, því ég hafði farið og verið með samkomur í fangelsinu með öðru kristnu fólki.  Nú kom léttir yfir mig, loksins var komið að þessu.Ég var afklæddur og látin fara í sturtu, síðan settur í hvítan slopp og það er gengið úr skugga um að ég sé ekki með nein fíkniefni.

Ég fæ að taka eina bók með mér og síðan er ég lokaður inni í einangrunarklefa, því fangelsið var fullsetið. Bókin sem varð fyrir valinu var,: " Góðan dag Heilagur Andi." Ég var búinn að bíða spenntur eftir þessari stund, að vera lokaður inni með Heilögum anda. Þetta var alveg frábært og bókin nær nú allri athygli minni og ég er að lesa langt fram á nótt.

Vakna snemma morguns, byrja strax að lesa, en dett fljótlega út og sofna aftur. Þá dreymir mig að það sé búið að skrifa fremst í bókina með blýanti: " Ég er Drottinn Guð þinn, hafðu engar áhyggjur, þú ert akkúrat á þeim stað sem ég vil hafa þig, ég elska þig."

Ég vakna strax við þessa sýn fullur gleði og ég finn sterkt fyrir nærveru Heilags anda.  Á þessari stundu var mér ljóst að Drottinn ætlar að vinna verk inni í fangelsinu, og ég hugsaði til allra þeirra sem báðu fyrir mér áður en ég fór inn.Ég fer síðan fram á gang til að ná í matarbakkann minn og þá fæ ég að upplifa nokkuð sérstakt. Það kemur strákur til mín og spyr mig hvort ég hafi komið inn í klefann hans í morgun klæddur hvítum slopp og með biblíu í hendinni.

Þetta var alveg ótrúlegt, drenginn hafði dreymt að einhver hefði komið til hans í klefann, í hvítum slopp og með biblíu í hendinni að færa honum.  Hvað var að gerast ?

Ég var settur í hvítan slopp þegar ég kom inn í fangelsið og ég ætlaði að færa föngunum biblíur sem "Kærleikurinn" var búinn að safna fyrir , og Guð mætir þessum unga manni í draumi, fyrstu nóttina sem ég er þarna. Aftur fæ ég þessa fullvissu að andi Drottins er með mér í fangelsinu.

Vikuna á eftir lá ég í pest, en næ samt að gefa öllum föngunum á Skólavörðustíg biblíur. Einn fullorðinn maður biður mig að eiga við sig orð og ég fæ tækifæri til að vitna fyrir honum og biðja með honum frelsisbæn .

Þetta byrjar vel, og ég er þakklátur fyrir Anda Guðs, sem er minn styrkur. Eymd er valkostur og þegar maður hefur tekið á móti upprisu andanum og keppist við að vera leiddur af honum þá er það ekkert sem getur stöðvað mann, ekkert fær stöðvað Anda Guðs.

Eftir að ég kom á Litla Hraun, þá tók það mig smá tíma að aðlagast staðnum, ég var ennþá veikur og það tók sinn toll.

Það var mikil breyting að fara frá yndislega lífinu sem ég lifði, fara frá kirkjunni minni þar sem kærleikurinn er í fyrirrúmi alltaf, yfir í það að vera fangi á Litla Hrauni. Þarna er föngum mikið stjórnað með andlegu ofbeldi, og ég verð vitni að því á hverjum degi að það er talað niður til fanga af öðrum föngum. Það er mikið blótað og hlegið af óförum annarra , menn reyna að upphefja sjálfa sig með því að niðurlægja veikari manninn. Mér finnst ekki skrýtið að margir fangar hafi tekið líf sitt hérna einfaldlega vegna vonsku samfanga sinna.

Einn fangi var stunginn með hníf um daginn í sjoppunni og þegar ég kom þar að, þá var verið að þrífa blóðið upp. Það var ekki skemmtileg upplifun.

En Guð er lausnin frá öllu óvinarins veldi og ég get vitnað um það sjálfur, því einu sinni var ég alveg eins og þessir strákar. En Drottinn mætti mér, þar sem ég var fastur í ofbeldisverkum og Drottinn leysti mig, þar sem ég var fastur í myrkrinu og tók mig inn í ljósið sitt. Hann bjargaði lífu mínu frá glötun og fyrir það er ég ævinlega þakklátur. Og þótt ég búi við þessar aðstæður núna þá hefur það furðulega lítil áhrif á mig, því ég er ekki hér á mínum vegum, heldur Guðs vegum.

Það fékk ég að upplifa um daginn þegar Drottinn læknaði nokkra fanga. Ég var inni í klefanum mínum að hlusta á prédikun með Todd Bentley og hann er að tala um, hvernig átta hundruð manns frelsuðust á einum degi í einu af glæpahverfum Afríku þegar Drottinn fór að lækna fólk.

Þessi prédikun kveikti svo mikinn eld í mér að ég rauk út úr klefanum og fór inn í klefa til fanga sem hafði kvartað yfir að vera slæmur í úlnliðunum vegna meiðsla. Ég spurði hann hvort hann vildi losna við verkinn og við báðum saman og verkurinn fór og honum dauðbrá. Ég sagði honum að þakka Jesú, og síðan fór ég fram á gang og hrópaði, hvort einhver væri með verki í líkamanum, því Jesús vildi lækna þá. Ég byrjaði að biðja fyrir einum sem var með verk í bakinu og á meðan ég bað fyrir honum, þá gengur annar drengur hjá og hann var líka með verki í baki. Hann fann verkinn fara úr sér bara við að ganga framhjá . Honum brá líka, og ég sagði honum að þakka Jesú, og þetta sama kvöld spurði hann mig hvar væri best að byrja að lesa í biblíunni.

Nú þennan sama dag gaf ég strákunum á mínum gangi biblíur í boði "Kærleikans" í Keflavík.

Þetta er besti dagurinn hingað til, og ég veit að Guð ætlar að gera miklu meira hérna því að Andinn vitnar um það með mínum anda.

En sumir eru erfiðir og hrokast bara upp við það að heyra minnst á Guð, og þess vegna er ég alltaf glaður, alltaf með kærleikann að vopni og ég vil enda þetta með versi úr 1.Pétursbréfi 2:12:

Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðarmönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.

Þetta er einmitt lykilinn. Ég trúi því að á tíma vitjunarinnar muni margir strákar sem ekkert vilja hafa með Guð að gera núna, á neyðardegi eiga þeir eftir að hrópa til Drottins og taka á móti honum sem sínum leiðtoga. Þess vegna keppist ég eftir því að lifa í kærleikanum, keppi eftir réttlætinu.

En ég vil biðja ykkur systkini að hafa fangana á Litla Hrauni ávallt í bænum ykkar, því að Guð er lifandi og bænheyrandi Guð og með fyrirbæn margra sigrum við allt óvinarins veldi.

Kveðja Gunnar Jóhann

 


Enn eitt slysið á Reykjanesbraut.

 

 

 

Reykjanesbrautin lokuð , sex manns fluttir á slysadeild. Þetta er orðið svo algengt að heyra að maður verður hálf samdauna. Síðan var hringt í mig og mér var tjáð að góður vinur minn og trúbróðir Aðalbjörn Leifsson hefði verið í öðrum bílnum. Og að hann væri illa slasaður. Brotnir hryggjaliðir og á erfitt með öndun og blæðir inn á miltað.

Það sem olli mér hugarangri, er að Alli lenti í samskonar slysi á Holtavörðuheiði fyrir u.þ.b. tveimur árum. Þá brotnaði hann einnig mjög illa og þurfti að spengja hann eins og núna.

Hins vegar var hann að vanda mjög brattur og sagðist sannfærður að Jesús myndi lækna sig nú sem í fyrra skiptið.

Bið ykkur sem trúið, að biðja fyrir bróðir okkar.


Höfundur

Kristinn Ásgrímsson
Kristinn Ásgrímsson
Safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík. Nafnlausar athugasemdir eru ekki leyfðar á þessum vef og verða fjarlægðar, sem og dónalegar athugasemdir.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband